ÉG ER ÍSLENDINGUR

Merkilegt að fylgjast með viðbrögðum íslenskra stjórnmálamanna við efnahagshruninu og heimskreppunni. Ég viðurkenni að sjálfur fylgdist ég hálf lamaður með stórveldinu Íslandi breytast yfir í hálfgert þriðja heims ríki í einu vettvangi. EN eftir 6 mánuði virðast stjórnmálamenn sem eru jú kosnir af þjóðinni til að stýra landinu, vera jafn lamaðir og ráðalausir. Menn eru jú að gera ákveðnar skammtímaráðstafanir til að leggja heimilum sem standa höllum fæti lið, sem er vel. En samhliða þessum ráðstöfunum VERÐA stjórnmálamenn að fara að leita leiða til að leysa vandamálið - þ.e. að við sem þjóð náum fótfestu efnahagslega svo við getum á nýjan leik borið höfuðið hátt þegar við segjum "Ég er Íslendingur". Við ERUM EKKI AUMINGJAR, heldur afkomendur Víkinga og þegar við lendum í mótbyr þá leggjum við ekki árar í bát og bíðum eftir að dráttarbáturinn komi og bjargi okkur heldur berjumst við á móti storminum þar til við erum komin í höfn.
Það er illþolanlegt að fylgjast með því hvernig stjórnmálamenn eru búnir að koma sér fyrir í skotgröfum, með og á móti ESB, með og á móti samstarfi við Norðmenn etc.
Í mínum huga væri langáhugaverðasta og nærtækasta lausnin fyrir okkur að beita okkur fyrir ríkjabandalagi við Norðmenn, Færeyinga og Grænlendinga, - nokkurskonar Norðurbandalag. Mér verður mjög starsýnt á Færeyinga frændur okkar og hvað þeir hafa staðið þétt við bakið á okkur undanfarið. Hvað þeir hafa staðið sig vel gagnvart öfgamönnum sem vilja friða alllar lífverur sem synda um í sjónum með því að tilkynna þeim einfaldlega að Færeyingar skilgreini sjálfir hvernig þeir nýti sínar eigin auðlindir.
Grænlendingar hafa nýverið greitt atkvæði um að þeir stefni á algjört sjálfstæði svo tímasetningin er rétt núna til að opna viðræður um þetta.
Við þurfum þó að ganga til samningaviðræðna með tiltekin skilyrði í farteskinu. Samningur okkar gagnvart Norðmönnum þarf einfaldlega að vera að Norðmenn fái einkarétt að olíuborun í landhelgi okkar og að við samþykkjum að ganga ekki í ESB til x margra ára. Þess í stað greiði Norðmenn eða yfirtaki allar okkar skuldir sem við höfum safnað - þ.e. geri okkur skuldlausa að öllu leyti. Norðmenn fái greitt fyrir þennan greiða með loforði fyrir að þeir fái, ÞEGAR og EF olía finnst í landhelginni okkar að eiga fyrstu olíuna þar til þeir hafa fengið það sem þeir greiddu okkur x 1,5 til dæmis. Þetta er sumsé skilyrt lán með 50% vöxtum en eina áhættan fyrir Norðmenn er ef svo ólíklega skyldi vilja til að ekki skyldi finnast olía hér, allavega nóg fyrir þessari upphæð. Samhliða því að hefja samninga við Norðmenn eigum við að sjálfsögðu að senda sendinefnd til Brussel til viðræðna við ESB nú þegar. Með öllum skuldum er ég ekki aðeins að meina skuldir þjóðarbúsins, heldur jafnframt allar skammtímaskuldir einstaklinga og fyrirtækja að auki. Ef við ætlum að koma hjólum atvinnulífsins af stað og gera fjölskyldum kleyft að sjá út úr augum fyrir skuldum, væri engin leið betri en sú að hreinsa borðið á línuna. Það eru yfirdráttarskuldir, bílalán, kreditkortaskuldir og bankalán sem eru að drekkja flestum, ekki húsnæðislánin sem eru til langs tíma og á hóflegum vöxtum þrátt fyrir allt, þó auðvitað væri afar ákjósanlegt að stilla þær af í leiðinni.  EF Norðmenn eru ófáanlegir til að semja við okkur á þessum nótum höfum við þá annan möguleika til að velta fyrir okkur þegar niðurstaða viðræðna við ESB liggur fyrir. EF Norðmenn samþykkja, verður ESB samningurinn einfaldlega lagður á hilluna. Þarf allt að vera svona flókið og þarf allt að taka svona ógnarlangan tíma? Fyrir utan Norðmenn eru svo að sjálfsögðu fleiri þjóðir sem gætu haft áhuga á einkaaðgangi að olíuauðlind okkar - sbr. vini okkar Rússa, Bandaríkjamenn o.s.frv. o.s.frv. Við þurfum bara að opna viðræður um þetta mál á sem flestum vígstöðvum. En enn og aftur væri mér mjög að skapi að fyrst yrði rætt við frændur okkar Norðmenn.

Við þurfum umfram allt að muna að þó skuldir okkar séu gríðarlegar á hvert mannsbarn, þá eru þær ekki miklar í heild á mælikvarða stjórþjóða. Við þurfum sumsé ekki mikið til að hreinsa okkar borð alveg eins og við þurftum ekki mikið til að vera fjórða ríkasta þjóð heims fyrir ekki löngu síðan.

Í guðana bænum, það hljóta að vera til stjórnmálamenn sem geta látið verkin tala án þess að þurfa að liggja endalaust yfir smáatriðum og aukaatriðum. Við eigum raunverulega möguleika í stöðunni og það er fullkomið ábyrgðarleysi að mínum dómi að setja ekki á fulla ferð við að nýta þá til að koma okkur í öruggt var fjárhagslega með öllum ráðum.

Ef þetta gengi eftir væri það frábært, ekki satt? Hver myndi ekki vilja heyra þær fréttir í morgunútvarpinu einn góðan veðurdag að Íslendingar séu frá og með deginum í dag skuldlausir með öllu?

Ef ekki þá geta getum við allavega sagt að við höfum reynt allt til að leysa vandamálið. Kallast þetta ekki verkkvíði?


Úrhrök og annars flokks manneskjur

NÚ ER yfirvofandi lögbann á reykingar á veitinga- og kaffihúsum. Að banna rekstraraðilum og eigendum veitinga- og skemmtistaða að heimila gestum sínum að reykja, kjósi þeir það, er illþolanleg forræðishyggja af hálfu hins opinbera og hreint ótrúlegt að á sama tíma og verið er að losa ýmis höft sem hamlað hafa viðskiptalífi okkar fram til þessa með sölu ríkisfyrirtækja, skuli meira að segja sjálfstæðismenn hafa samþykkt þessi lög.

Þarna er augljóslega verið að ganga freklega á rétt einstaklinga – bæði rekstraraðila viðkomandi staða sem og vitaskuld þeirra u.þ.b. 30% gesta viðkomandi veitinga – og skemmtistaða sem kjósa að reykja. Líklega er þó prósentan töluvert hærri, þ.e. margir kjósa að reykja þegar þeir bregða sér út um helgar þó að þeir geri það ekki ella.

Slík bönn hafa reynst misvel þar sem þau hafa verið sett og reynsla annarra landa sýnir að þau henta einfaldlega ekki á öllum stöðum, háð markhópi og jafnvel bæjarhluta. Á Íslandi, þar sem veður eru válynd, er það vitaskuld afar slæm hugmynd að skylda veitingamenn til að vísa viðskiptavinum á dyr, detti þeim í hug að fá sér vindling með kaffinu. Það er nú ekki beint aðlaðandi sjón að sjá hóp af nikótínháðum vesalingum úti í 5 stiga frosti og byl á laugardagsnóttu, hímandi eins og hreppsómaga fyrir utan dyr skemmtistaða bæjarins. Þetta á vitaskuld að vera ákvörðun hvers rekstraraðila fyrir sig. Ef ég rek kaffihús og met það svo að viðskiptin muni glæðast við að banna viðskiptavinum að reykja, nú þá geri ég það einfaldlega og þetta hafa nokkrir staðir þegar gert. Ef ég rek kaffihús, veitingastað eða skemmtistað þar sem reykingar eru heimilar passa ég vitaskuld að ráða fólk í vinnu sem kýs að reykja eða kýs að sætta sig við reykingar í kringum sig. Ég hef tvisvar á skömmum tíma að undanförnu verið í samkvæmi þar sem svo háttaði til að í aðalsalnum, þar sem skemmtiatriði fóru fram, var bannað að reykja. Í báðum tilfellum var staðan þannig, þegar fólk var búið að borða, að salurinn tæmdist og gestir stóðu frammi í gangi allt kvöldið, spjölluðu, drukku og reyktu (reyklausa fólkið drakk bara og spjallaði) á meðan hljómsveitin spilaði fyrir tómum sal. Athugið að ég nota orðið kýs eins oft og ég kem því að, það er, þegar upp er staðið, mitt að ákveða hvað ég kýs að gera við líf mitt, svo lengi sem ég fer að lögum og þegar ég er tilbúinn að hætta að reykja, þá hætti ég vegna þess að ég kýs þá að reykja ekki lengur. Ríkið selur sjálft tóbak hérlendis en vinnur svo samtímis að því að gera reykingamenn gjaldþrota með ofurverði á tóbaki og jafnframt útlæga úr mannlegu þjóðfélagi sem úrhrök og annars flokks manneskjur, í stað þess að leggja þeim lið til að hætta þessum ósið með t.a.m. niðurgreiðslum á nikótínlyfjum. Vonandi endurskoða forráðamenn þjóðarinnar þessi ranglátu bannlög, fresta þeim um 150 ár eða fella þau einfaldlega úr gildi. Ef þeir sjá ekki að sér með þetta væri hreinlegra að taka skrefið til fulls og banna einfaldlega tóbak á Íslandi með lögum. Það er engum greiði gerður með því að fá að kaupa tóbak ef menn mega hvergi reykja nema heima hjá sér (svo lengi sem það er leyft).

INGI KARLSSON,

Hólmgarði 34, Reykjavík.


Sænska leiðin, aðrar leiðir

MÁLEFNIÐ sem ég ætla að fjalla um hér er einmitt um þessar mundir til umræðu hjá ráðamönnum þjóðarinnar en það er vændi og leiðir til að sporna gegn því. Mikið hefur verið rætt um "sænsku leiðina" – þ.e. að gera kaup á kynlífi refsiverð í stað þess að refsa þeim sem það stunda.

Það er dapurlegt að hlusta á slíkan málflutning hjá þingmönnum og öðru þokkalega vel gefnu fólk sem velflest er í öruggum hálaunastörfum og þarf ekki að hafa nokkrar einustu áhyggjur af reikningum næstu mánaðamóta. Stór hluti þeirra sem stundar vændi hérlendis og erlendis er ósköp venjulegt fólk eins og ég og þú sem þarf einfaldlega að drýgja tekjurnar til að endar nái saman eða hefur einfaldlega ekki val á sambærilegum launum í öðrum störfum. Margir eiga kannske bágt með að skilja að fólk sem af einhverjum ástæðum nær ekki að láta enda ná saman vilji frekar bjarga sér og sínum á eigin spýtur en að sækja um bætur hjá hinu opinbera. Ef það er mat einstaklings að til að halda sjálfsvirðingu sinni sé vændi betri kostur en opinberar bætur eða láglaunavinna, þá er það mitt mat að í lýðræðisþjóðfélagi eigi viðkomandi að fá að ráða því án afskipta hins opinbera. Á okkar tímum vaða uppi forpokaðir siðapostular með hið svokallaða Femínistafélag Íslands í broddi fylkingar sem allt vilja banna án þess að nokkur þori að andmæla af ótta við að vera útskúfað úr samfélagi "hinna réttsýnu".

En ég segi: Hingað og ekki lengra. Alþingismönnum ber að taka á málum af skynsemi, framsýni og raunsæi og Femínistafélagið og aðrir sem banna vilja vændi með öllu ættu að hugsa málið ögn lengra. Staðreyndin sem blasir við er að vændi verður ekki afnumið með boðum og bönnum. Slík boð og bönn eru einmitt vatn á myllu glæpamanna sem sérhæfa sig í mansali og oft eru sömu aðilar eða aðilar þeim tengdir jafnframt í sölu fíkniefna. Nær væri að setja lög um vændi þar sem fólki sem það stundar verði skylt að skrá sig hjá opinberum aðilum. Viðkomandi verði settar ákveðnar reglur um hvar og hvernig vændið skuli stundað, reglulegar læknisskoðanir og viðtöl við félagsráðgjafa og ef viðkomandi óskar að hætta iðju sinni verði leitað allra ráða til að aðstoða viðkomandi við það. Gera ætti aðilum kleift að sækja um leyfi til að opna vændishús þar sem viðkomandi rekstraraðili beri fulla ábyrgð á að inna umsamdar launagreiðslur af hendi til starfsfólks auk þess sem að starfsöryggis og mannréttinda starfsfólks skyldi gætt í hvívetna. Slíkir rekstraraðilar myndu eðli máls samkvæmt að sjálfsögðu vera undir eftirliti lögreglu og yfirvalda og væru skyldugir til að greiða skatta og gjöld af hagnaði og starfsfólk myndi sömuleiðis greiða skatt af sínum launum. Skattpeninga þessa hóps mætti svo nota beint til úrræða til að draga úr ásókn i þessa atvinnu, til að standa undir kostnaði við reglubundið heilbrigðiseftirlit o.s.frv. Svo lengi sem vændi er bannað, verður það einfaldlega stundað án eftirlits af nokkru tagi fyrir luktum dyrum eða undir öðru yfirskini þ.e. eftirspurnin er alltaf fyrir hendi og framboðið þ.a.l. sömuleiðis. Þetta form er augljóslega stórhættulegt hvorttveggja fyrir réttlausa seljendur kynlífs sem geta alltaf átt von á barsmíðum eða einhverju þaðan af verra fyrir luktum dyrum sem og kaupendur sem geta alltaf átt á hættu að smitast af kynsjúkdómum sem unnt væri að fyrirbyggja með reglubundnu eftirliti og fyrirbyggjandi reglum fyrir þá sem stunda þessa atvinnu. Neðanjarðarvændi af þessu tagi gerir fólk sem hefur afkomu af þessu jafnframt að augljósum fórnarlömbum fyrir fíkniefnasala, þ.e. við höfum fram til þessa bókstaflega haldið þeim hvorum að öðrum og frændur okkar Svíar hafa nú ákveðið að gera það líka með því að banna kaup á vændi. Kaupendur vændis geta nota bene verið erlendir ferðamenn, einmana bissnessmenn, öryrkjar, karlar eða konur, ég eða þú. Ég nefndi konur sérstaklega vegna þess að konur geta alveg orðið einmana eins og við karlarnir. Umræðan hér á landi hefur einhvern veginn alltaf dregið upp mynd af kaupendum kynlífs sem illa innrættum, miðaldra, feitlögnum, ríkum köllum sem elska ekkert meira en að níðast á kornungum ógæfustúlkum sem leiðst hafa út í vændi til að afla fjár til fíkniefnakaupa. Á meðan vændi er ólöglegt er kannske nokkuð til í þessari staðalmynd þar eð enginn er til að fylgjast með og hvað þá að skakka leikinn ef menn fara yfir strikið og ekki er það fréttnæmt þegar venjulegur maður kaupir sér kynlíf og allt gengur skv. samningi. Hefðbundnir kaupendur kynlífs eru annars vitaskuld bara venjulegt fólk í leit kryddi í tilveruna án skuldbindinga, menn og konur sem kjósa frekar að greiða fasta fjárhæð fyrir kryddið í stað þess að eyða jafnvel hærri fjárhæðum auk ómælds tíma á öldurhúsum hérlendis eða erlendis þar til þeir finna það sem þeir eru að leita að.

Höfundur er prentari.


Höfundur

Ingi Karlsson
Ingi Karlsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband