Sænska leiðin, aðrar leiðir

MÁLEFNIÐ sem ég ætla að fjalla um hér er einmitt um þessar mundir til umræðu hjá ráðamönnum þjóðarinnar en það er vændi og leiðir til að sporna gegn því. Mikið hefur verið rætt um "sænsku leiðina" – þ.e. að gera kaup á kynlífi refsiverð í stað þess að refsa þeim sem það stunda.

Það er dapurlegt að hlusta á slíkan málflutning hjá þingmönnum og öðru þokkalega vel gefnu fólk sem velflest er í öruggum hálaunastörfum og þarf ekki að hafa nokkrar einustu áhyggjur af reikningum næstu mánaðamóta. Stór hluti þeirra sem stundar vændi hérlendis og erlendis er ósköp venjulegt fólk eins og ég og þú sem þarf einfaldlega að drýgja tekjurnar til að endar nái saman eða hefur einfaldlega ekki val á sambærilegum launum í öðrum störfum. Margir eiga kannske bágt með að skilja að fólk sem af einhverjum ástæðum nær ekki að láta enda ná saman vilji frekar bjarga sér og sínum á eigin spýtur en að sækja um bætur hjá hinu opinbera. Ef það er mat einstaklings að til að halda sjálfsvirðingu sinni sé vændi betri kostur en opinberar bætur eða láglaunavinna, þá er það mitt mat að í lýðræðisþjóðfélagi eigi viðkomandi að fá að ráða því án afskipta hins opinbera. Á okkar tímum vaða uppi forpokaðir siðapostular með hið svokallaða Femínistafélag Íslands í broddi fylkingar sem allt vilja banna án þess að nokkur þori að andmæla af ótta við að vera útskúfað úr samfélagi "hinna réttsýnu".

En ég segi: Hingað og ekki lengra. Alþingismönnum ber að taka á málum af skynsemi, framsýni og raunsæi og Femínistafélagið og aðrir sem banna vilja vændi með öllu ættu að hugsa málið ögn lengra. Staðreyndin sem blasir við er að vændi verður ekki afnumið með boðum og bönnum. Slík boð og bönn eru einmitt vatn á myllu glæpamanna sem sérhæfa sig í mansali og oft eru sömu aðilar eða aðilar þeim tengdir jafnframt í sölu fíkniefna. Nær væri að setja lög um vændi þar sem fólki sem það stundar verði skylt að skrá sig hjá opinberum aðilum. Viðkomandi verði settar ákveðnar reglur um hvar og hvernig vændið skuli stundað, reglulegar læknisskoðanir og viðtöl við félagsráðgjafa og ef viðkomandi óskar að hætta iðju sinni verði leitað allra ráða til að aðstoða viðkomandi við það. Gera ætti aðilum kleift að sækja um leyfi til að opna vændishús þar sem viðkomandi rekstraraðili beri fulla ábyrgð á að inna umsamdar launagreiðslur af hendi til starfsfólks auk þess sem að starfsöryggis og mannréttinda starfsfólks skyldi gætt í hvívetna. Slíkir rekstraraðilar myndu eðli máls samkvæmt að sjálfsögðu vera undir eftirliti lögreglu og yfirvalda og væru skyldugir til að greiða skatta og gjöld af hagnaði og starfsfólk myndi sömuleiðis greiða skatt af sínum launum. Skattpeninga þessa hóps mætti svo nota beint til úrræða til að draga úr ásókn i þessa atvinnu, til að standa undir kostnaði við reglubundið heilbrigðiseftirlit o.s.frv. Svo lengi sem vændi er bannað, verður það einfaldlega stundað án eftirlits af nokkru tagi fyrir luktum dyrum eða undir öðru yfirskini þ.e. eftirspurnin er alltaf fyrir hendi og framboðið þ.a.l. sömuleiðis. Þetta form er augljóslega stórhættulegt hvorttveggja fyrir réttlausa seljendur kynlífs sem geta alltaf átt von á barsmíðum eða einhverju þaðan af verra fyrir luktum dyrum sem og kaupendur sem geta alltaf átt á hættu að smitast af kynsjúkdómum sem unnt væri að fyrirbyggja með reglubundnu eftirliti og fyrirbyggjandi reglum fyrir þá sem stunda þessa atvinnu. Neðanjarðarvændi af þessu tagi gerir fólk sem hefur afkomu af þessu jafnframt að augljósum fórnarlömbum fyrir fíkniefnasala, þ.e. við höfum fram til þessa bókstaflega haldið þeim hvorum að öðrum og frændur okkar Svíar hafa nú ákveðið að gera það líka með því að banna kaup á vændi. Kaupendur vændis geta nota bene verið erlendir ferðamenn, einmana bissnessmenn, öryrkjar, karlar eða konur, ég eða þú. Ég nefndi konur sérstaklega vegna þess að konur geta alveg orðið einmana eins og við karlarnir. Umræðan hér á landi hefur einhvern veginn alltaf dregið upp mynd af kaupendum kynlífs sem illa innrættum, miðaldra, feitlögnum, ríkum köllum sem elska ekkert meira en að níðast á kornungum ógæfustúlkum sem leiðst hafa út í vændi til að afla fjár til fíkniefnakaupa. Á meðan vændi er ólöglegt er kannske nokkuð til í þessari staðalmynd þar eð enginn er til að fylgjast með og hvað þá að skakka leikinn ef menn fara yfir strikið og ekki er það fréttnæmt þegar venjulegur maður kaupir sér kynlíf og allt gengur skv. samningi. Hefðbundnir kaupendur kynlífs eru annars vitaskuld bara venjulegt fólk í leit kryddi í tilveruna án skuldbindinga, menn og konur sem kjósa frekar að greiða fasta fjárhæð fyrir kryddið í stað þess að eyða jafnvel hærri fjárhæðum auk ómælds tíma á öldurhúsum hérlendis eða erlendis þar til þeir finna það sem þeir eru að leita að.

Höfundur er prentari.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ingi Karlsson
Ingi Karlsson
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband