Úrhrök og annars flokks manneskjur

NÚ ER yfirvofandi lögbann á reykingar á veitinga- og kaffihúsum. Að banna rekstraraðilum og eigendum veitinga- og skemmtistaða að heimila gestum sínum að reykja, kjósi þeir það, er illþolanleg forræðishyggja af hálfu hins opinbera og hreint ótrúlegt að á sama tíma og verið er að losa ýmis höft sem hamlað hafa viðskiptalífi okkar fram til þessa með sölu ríkisfyrirtækja, skuli meira að segja sjálfstæðismenn hafa samþykkt þessi lög.

Þarna er augljóslega verið að ganga freklega á rétt einstaklinga – bæði rekstraraðila viðkomandi staða sem og vitaskuld þeirra u.þ.b. 30% gesta viðkomandi veitinga – og skemmtistaða sem kjósa að reykja. Líklega er þó prósentan töluvert hærri, þ.e. margir kjósa að reykja þegar þeir bregða sér út um helgar þó að þeir geri það ekki ella.

Slík bönn hafa reynst misvel þar sem þau hafa verið sett og reynsla annarra landa sýnir að þau henta einfaldlega ekki á öllum stöðum, háð markhópi og jafnvel bæjarhluta. Á Íslandi, þar sem veður eru válynd, er það vitaskuld afar slæm hugmynd að skylda veitingamenn til að vísa viðskiptavinum á dyr, detti þeim í hug að fá sér vindling með kaffinu. Það er nú ekki beint aðlaðandi sjón að sjá hóp af nikótínháðum vesalingum úti í 5 stiga frosti og byl á laugardagsnóttu, hímandi eins og hreppsómaga fyrir utan dyr skemmtistaða bæjarins. Þetta á vitaskuld að vera ákvörðun hvers rekstraraðila fyrir sig. Ef ég rek kaffihús og met það svo að viðskiptin muni glæðast við að banna viðskiptavinum að reykja, nú þá geri ég það einfaldlega og þetta hafa nokkrir staðir þegar gert. Ef ég rek kaffihús, veitingastað eða skemmtistað þar sem reykingar eru heimilar passa ég vitaskuld að ráða fólk í vinnu sem kýs að reykja eða kýs að sætta sig við reykingar í kringum sig. Ég hef tvisvar á skömmum tíma að undanförnu verið í samkvæmi þar sem svo háttaði til að í aðalsalnum, þar sem skemmtiatriði fóru fram, var bannað að reykja. Í báðum tilfellum var staðan þannig, þegar fólk var búið að borða, að salurinn tæmdist og gestir stóðu frammi í gangi allt kvöldið, spjölluðu, drukku og reyktu (reyklausa fólkið drakk bara og spjallaði) á meðan hljómsveitin spilaði fyrir tómum sal. Athugið að ég nota orðið kýs eins oft og ég kem því að, það er, þegar upp er staðið, mitt að ákveða hvað ég kýs að gera við líf mitt, svo lengi sem ég fer að lögum og þegar ég er tilbúinn að hætta að reykja, þá hætti ég vegna þess að ég kýs þá að reykja ekki lengur. Ríkið selur sjálft tóbak hérlendis en vinnur svo samtímis að því að gera reykingamenn gjaldþrota með ofurverði á tóbaki og jafnframt útlæga úr mannlegu þjóðfélagi sem úrhrök og annars flokks manneskjur, í stað þess að leggja þeim lið til að hætta þessum ósið með t.a.m. niðurgreiðslum á nikótínlyfjum. Vonandi endurskoða forráðamenn þjóðarinnar þessi ranglátu bannlög, fresta þeim um 150 ár eða fella þau einfaldlega úr gildi. Ef þeir sjá ekki að sér með þetta væri hreinlegra að taka skrefið til fulls og banna einfaldlega tóbak á Íslandi með lögum. Það er engum greiði gerður með því að fá að kaupa tóbak ef menn mega hvergi reykja nema heima hjá sér (svo lengi sem það er leyft).

INGI KARLSSON,

Hólmgarði 34, Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Heyr, heyr Ingi!

Ólafur Als, 28.3.2007 kl. 17:56

2 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Það er glatað að þurfa að senda fötin í hreinsun vegna þess að einhver KÝS að reykja í sérútbúna reykingahorninu. Mér finnst ömurlegt og ólýðræðislegt að það eigi að banna reykingar á veitingastöðum, skemmmtistöðum og börum með lögum. Þó er hluti af mér ánægður með það, svo skrýtið sem það er. Það mætti kannski segja að ég er andstæðingur reykingabanns á kvöldin, en á morgnana þegar ég vakna og finn viðbjóðslega reykingapestina á koddanum (eftir að hafa nuddast þangað úr hárinu) er ég hlynntur reykingabanninu.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 29.3.2007 kl. 08:34

3 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Óskaplegt væl er þetta í reykingamönnum alla daga. Það er eins og það séu sjálfsögð mannréttindi að fá að púa yfir allt og alla í kringum sig.

Af hverju ekki bara að ganga alla leið og leyfa kennurum að reykja í kennslustofum. Það hlítur að vera óþolandi fyrir kennara sem reykja að þurfa að neita sér um rettu allan daginn.

Guðmundur Örn Jónsson, 29.3.2007 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ingi Karlsson
Ingi Karlsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband